Námið

Námið er ætlað börnum og unglingum á aldrinum 8-16 ára og er skipt í hópa eftir aldri.

Námið er annaskipt og spannar 12 vikur. Kennt er einu sinni í viku tvo klukkutíma í senn þ.e. klukkutíma í söng og klukkutíma í leiklist.
Önninni lýkur með nemendasýningu. Allir söng- og leiklistarkennarar við skólann eru fagmenntaðir.

Mætingarskylda er í skólann og forföll ber að tilkynna til skólans með tölvupósti á netfangið songlist@borgarleikhus.is eða með SMS í síma 861-6722.

Yfir sumartímann er boðið upp á vikulöng námskeið.

Söngtímar

Í söngtímum eru að hámarki sex nemendur í hóp. Hver nemandi fær tilsögn í söngtækni og túlkun textans. Sungið er í hljóðnema við undirspil af geisladiskum. Eingöngu eru æfð lög með íslenskum texta.

Í sjöttu viku fær hver sönghópur afhentan lítinn söngleik, sem æfður er fram að annarlokum. Hver og einn nemandi fær lag til að æfa sem sungið er í söngleiknum. Æfðar eru hreyfingar við lögin í söngtímanum og túlkun.

Leiklistartímar

Í leiklistartímum er blandað saman tveimur sönghópum þannig að fjöldi nemenda er að hámarki 12.

Fyrstu fimm vikurnar byggist kennslan á fjölbreytilegum æfingum sem allar hafa góðan og gildan tilgang. Unnið er með einbeitingu og hlustun, raddbeitingu, rythmaæfingar, spuna og textavinnu af ýmsu tagi. Áhersla er lögð á að efla sjálfstraust nemenda og virkja sköpunarkraft þeirra.

Í sjöttu viku fá nemendur afhent leikrit með söngvum í. Þar fær hver og einn sitt hlutverk ásamt því að syngja lag. Nemendur æfa leikritið og þau lög sem það inniheldur, það sem eftir er annar. Nemendur eiga að kunna texta sinn utanbókar vikuna eftir afhendingu leikrita . Það er afar mikilvægt. Aðstoðarkennari, úr hópi elstu nemenda skólans, koma inn í sjöundu viku þannig að þá eru til staðar í leiklistartímunum, leikstjóri og aðstoðarmaður.

Nemendasýningar

Önninni lýkur með veglegum nemendasýningum. Hver sönghópur flytur sitt leikrit einu sinni, en þess má geta að á hverri sýningu eru jafnan flutt 4-5 leikrit. Nemendur í Listhópum flytja sín leikrit tvisvar sinnum allajafna.

Athugið að selt er inná nemendasýningar. Miðaverði er þó haldið í algjöru lágmarki.
Miðasala á nemendasýningar í Borgarleikhúsi fer fram í síma 568-8000

 

 

S�nglist - Borgarleikh�sinu - Listabraut 3 - 103 Reykjav�k - S�mi 590 8838 - songlist@borgarleikhus.is - www.songlist.is